Um ÍKV

Viðburðir á vegum ÍKV

Íslensk – kínverska viðskiptaráðið (ÍKV) er félagsskapur um 70 fyrirtækja úr ýmsum geirum atvinnulífsins. Það var stofnað árið 1995 og hefur starfsemi viðskiptaráðsins dafnað vel síðan þá.

Meginmarkmið og hlutverk ráðsins er að stuðla að og efla viðskipti á milli Íslands og Kína. ÍKV hefur skipulagt ferðir á vörusýningar þar eystra, tekur á móti kínverskum viðskiptasendinefndum og veitir fyrirtækjum upplýsingar og ráðleggingar varðandi fyrstu skrefin í átt að viðskiptum við Kína. Einnig stendur það fyrir miðlun viðskiptasambanda og skoðanaskiptum á milli fyrirtækja og stjórnvalda í báðum löndum.

Helsti samstarfaðili Íslensk kínverska viðskiptaráðsins í Kína er Alþjóðaviðskiptaráð Kína (China Council for Promotion of International Trade, CCPIT). ÍKV hefur einnig ritað undir viljayfirlýsingu um aukið samstarf viðskiptaráðsins og Matvælaviðskiptaráðs Kína (China Chamber of Commerce of Foodstuffs and Native Produce, CFNA).

Félagsmenn í ÍKV eru um 70 fyrirtæki úr margvíslegum geirum viðskiptalífsins. Árgjaldið er 30.000 krónur, en 15.000 fyrir smærri fyrirtæki, með veltu undir 50 milljónum króna. Hægt er að skrá sig í ráðið hér neðst á síðunni.

Starfsemi ÍKV er margþætt:

  • ÍKV hefur staðið fyrir Kínverskum dögum hérlendis og unnið að kínverskum vörusýningum.
  • ÍKV hefur skipulagt velheppnaðar hópferðir til Kína á Canton vörusýninguna sem er ein sú stærsta sinnar tegundar í heiminum.
  • Kínverskum áramótum er fagnað árlega.
  • Reglulega eru haldin málþing um viðskipti Íslands og Kína.
  • ÍKV hefur staðið að fyrirtækjastefnumótum íslenskra og kínverskra fyrirtækja.
  • Tekið er á móti mörgum kínverskum viðskiptasendinefndum árlega.

ÍKV hefur m.a. skipulagt ráðstefnur fyrir félagsmenn til að kanna möguleika á:

  • Fjárfestingum í Kína.
  • Samstarfi í áliðnaði í Kína.
  • Ferðaþjónustu: Eru ný tækifæri fyrir íslenska ferðaþjónustu í Kína?

Íslensk-kínverska viðskiptaráðið deilir skrifstofu með Félagi atvinnurekenda og er á 9. hæð í Húsi verslunarinnar.

Samþykktir Íslensk-kínverska viðskiptaráðsins

Íslensk – kínverska viðskiptaráðið

SAMÞYKKTIR

I. Nafn og heimili

1. gr.
Nafn félagsins er Íslensk – kínverska viðskiptaráðið – ÍKV, hér eftir nefnt „félagið“. Heimili og
varnarþing þess er í Reykjavík og um réttarstöðu þess fer að íslenskum lögum.

II. Markmið og starfsemi

2. gr.
Markmið félagsins eru að viðhalda og efla núverandi viðskiptatengsl milli Íslands og Kína og
stuðla að nýjum og vinna almennt að því að auka tengsl fyrirtækja landanna. Jafnframt að
efla hvers konar tengsl á sviði menntunar og menningar.
Félagið mun einnig leitast við að gæta hagsmuna félagsmanna gagnvart stjórnvöldum á
Íslandi og í Kína.
3. gr.
Til að ná þessum markmiðum skal félagið m.a. vinna að eftirfarandi:
a. Skipulagningu funda og ráðstefna er varða viðskipti, verslun, þjónustu og
viðskiptatækifæri milli landanna.
b. Skipulagningu heimsókna aðila í viðskiptalífi beggja landanna og þátttöku í
vörusýningum.
c. Styðja félagsmenn í sókn á markaði í Kína og stuðla að virkum tengslum og miðlun
upplýsinga, þekkingu og reynslu þeirra á milli.
d. Kynna starfsemi félagsins og dreifa upplýsingum um viðskiptatengiliði svo og um
viðskiptalíf, fjárfestinga- og viðskiptamöguleika á Íslandi og í Kína – og aðstoða við að
koma á tengslum.
e. Standa vörð um framkvæmd fríverslunarsamnings
Íslands og Kína.

III. Félagsaðild

4. gr.
Félagar geta verið einstaklingar, fyrirtæki hvers konar og stofnanir, eftir því sem við á, á
Íslandi og í Kína, sem vilja taka þátt í að stuðla að því að markmið félagsins náist. Samþykki
stjórnar þarf fyrir félagsaðild. – Sótt skal skriflega um aðild að félaginu.

Stjórn félagsins getur með atkvæðum minnst 5 stjórnarmanna vikið félaga úr félaginu, sem
með starfsemi og/eða háttsemi sinni brýtur alvarlega í bága við markmið þess að mati þeirra
stjórnarmanna.
Aðalfundur getur kosið heiðursfélaga sem tilnefndur hefur verið af stjórn félagsins – enda
hljóti tillagan samþykki 2/3 hluta atkvæða á aðalfundi.
Stjórn boðar til almennra félagsfunda með hæfilegum fyrirvara á tryggilegan hátt þó ekki
með minni fyrirvara en 7 dögum.

IV. Fjármál

5. gr.
Tekjur félagsins eru:
a. Félagsgjöld skv. ákvörðun aðalfundar.
b. Styrkir.
c. Önnur fjáröflun.
d. Frjáls framlög.
Reikningsár félagsins er almanaksárið.

V. Aðalfundur

6. gr.
Aðalfund skal halda í síðasta lagi fyrir lok júni mánaðar ár hvert. Stjórn félagsins skal boða til
aðalfundar með dagskrá á tryggilegan hátt með minnst 2ja vikna fyrirvara. Fundarboð með
tölvupósti til félagsmanna telst fullnægjandi. Dagskrár aðalfundar skal getið í fundarboði,
ásamt tillögum til breytinga á samþykktum ef einhverjar eru. Í fundarboðinu skal jafnframt
óskað eftir framboðum til stjórnar sem berast skulu í síðasta lagi viku fyrir aðalfund. Loks skal
þess getið í fundarboði hvernig stjórn félagsins hefur ákveðið að atkvæðagreiðsla fari fram á
fundinum. Aðalfundur er löglegur ef boðað er til hans skv. samþykktum þessum.
7. gr.
Allir félagar sem staðið hafa skil á árgjaldi yfirstandandi starfsárs eiga rétt til setu á aðalfundi
með málfrelsi, tillögu – og atkvæðarétti. Þeir geta jafnframt allir, sem einstaklingar eða sem
tengiliðir fyrirtækja gefið kost á sér til stjórnarkjörs.
Sérhver félagi hefur eitt atkvæði á aðalfundi. Atkvæðagreiðsla skal fara fram með
handauppréttingu nema við kjör til stjórnar, þá skal atkvæðagreiðsla vera skrifleg. Einungis
eru gild atkvæði þeirra félaga sem sækja fundinn. Þó er meirihluta stjórnar (a.m.k. 5 af 7)
heimilt á stjórnarfundi í aðdraganda aðalfundar að ákveða að félagar sem sækja aðalfund geti
greitt atkvæði skv. umboðum félaga sem ekki sækja fundinn. Hver félagi getur þó aðeins farið
með tvö atkvæði samkvæmt umboðum.

Stjórn getur ákveðið að aðalfundir sem og almennir félagsfundir verði haldnir rafrænt og
félögum verði boðin rafræn þátttaka í fundum, þ.m.t. að félagar geti greitt atkvæði rafrænt
án þess að vera á fundarstað.
8. gr.
Formaður setur aðalfund og stýrir honum eða tilnefnir sérstakan fundarstjóra. Fundarstjóri
tilnefnir fundarritara.
9. gr.
Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
1. Skýrsla stjórnar.
2. Ársreikningur kynntur og borinn undir atkvæði.
3. Breytingar á samþykktum.
4. Kosning formanns.
5. Kosning annarra stjórnarmanna.
6. Kosning skoðunarmanns.
7. Ákvörðun félagsgjalda.
8. Önnur mál.

VI. Stjórn

10. gr.
Stjórn félagsins skipa 7 menn kosnir á aðalfundi til 2ja ára í senn. Að jafnaði formaður og þrír
stjórnarmenn annað árið og þrír stjórnarmenn hitt árið. Formaður skal kosinn sérstaklega en
aðrir stjórnarmenn í einu lagi. Stjórn skiptir með sér verkum þannig að auk formanns skipa
hana varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnendur.
11. gr.
Stjórn er heimilt að fela framkvæmdastjóra utan stjórnar að annast daglegan rekstur félagsins
og fara með prókúru þess.
12. gr.
Stjórn er ákvörðunarbær ef a.m.k. 4 stjórnarmenn sitja fund. Við ákvarðanatöku ræður
einfaldur meirihluti. Séu atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns úrslitum eða varaformanns í
hans stað.

VII. Aðsetur

13. gr.
Það er hlutverk stjórnar að ákveða aðsetur félagsins og e.a. hvort og þá hvar það skuli hýst.

VIII. Breytingar á samþykktum

14. gr.
Samþykktum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi og tillögur til breytinga á þeim skulu
berast stjórn í síðasta lagi 2. apríl ár hvert. Stjórn skal kynna þær og eftir atvikum eigin

tillögur í aðalfundarboði. Til að breytingartillaga nái fram að ganga þarf hún að hljóta
stuðning a.m.k. 2/3 hluta atkvæða á fundinum.

IX. Félagsslit

15. gr.
Tillaga um slit félagsins skal sæta sömu meðferð og tillaga um breytingu á samþykktum.
Verði tillagan samþykkt þá skal aðalfundur jafnframt ákveða á hvern hátt hreinni eigin
félagsins skuli ráðstafað. Eigi má ákveða að eignir renni til félagsmanna heldur skulu þær
renna til aðila sem vinnur að svipuðum markmiðum og félagið. Aðalfundur kýs skilanefnd til
að ganga frá skuldbindingum félagsins og ráðstafa eignum sem eftir standa í samræmi við
ákvörðun aðalfundar.

Ákvæði til bráðabirgða:
Þegar samþykktir þessar hafa verið samþykktar, sbr. 11. gr. og 31. gr. eldri samþykkta, á
aukafundi félagsins (ráðsins), þá koma þær í stað þeirra í heild sinni.
Í kjölfar gildistöku þessara samþykkta skal á fundinum, þrátt fyrir ákvæði 9. gr. hér að framan,
kjósa tvo nýja stjórnarmenn þannig að stjórnina skipi 7 menn svo sem 10 gr. þessara nýju
samþykkta kveður á um. Kjörtímabil annars verður fram að aðalfundi 2025 og hins fram að
aðalfundi 2026. – Áréttað er til skýringar að núverandi kjörtímabil formanns og tveggja
stjórnarmanna lýkur á aðalfundi 2024 og tveggja stjórnarmanna á aðafundi 2025.
—————————————–
Þannig samþykkt 22. maí 2024 á aukafundi ÍKV
sem boðað var til skv. 11. og 31 gr. eldri samþykkta.

Stjórn ÍKV

  • Jónína Bjartmarz, formaður
  • Einar Rúnar Magnússon, varaformaður
  • Árni Páll Einarsson
  • Guðmundur Ingason
  • Guðmundur R. Sigtryggsson
  • Hrönn Margrét Magnúsdóttir
  • Sandra Yunhong She

Starfsfólk ÍKV:

Enginn starfsmaður er skráður.

Umsókn um aðild að viðskiptaráðinu

Fyrirtækjum er raðað í gjaldflokka eftir fjölda starfsmanna. Í fyrsta flokki eru fyrirtæki með færri en 50 starfsmenn 1. fl. kr. 15.000. Í öðrum flokki eru fyrirtæki með 50 starfsmenn eða fleiri 2.fl. kr. 30.000.

Gjaldflokkur

1 + 12 =

Íslensk Kínverska Viðskiptaráðið

Kirkjubraut 40

300 Akranes

[email protected]

[email protected]

3 + 10 =

Share This