FRÉTTIR

Grein Jónínu Bjartmarz, formanns ÍKV, í sérblaði Fréttablaðsins vegna 50 ára afmælis stjórnmálasambands Íslands og Kína, 8. desember 2021. 

Á þeim fimm áratugum sem Ísland og Kína hafa ræktað stjórnmálatengsl hafa viðskipti landanna þróast úr því að vera lítil sem engin í byrjun áttunda áratugar síðustu aldar og í það að vera nú mikil og gjöful. Kína er nú í hópi stærstu viðskiptalanda Íslands og mikil tækifæri í viðskiptum eru enn ónotuð.

Íslensk-kínverska viðskiptaráðið var stofnað árið 1995, fyrir 26 árum, til að greiða fyrir viðskiptum ríkjanna. Ráðið er í dag félagsskapur um 70 fyrirtækja úr ýmsum geirum atvinnulífsins. ÍKV hefur með margvíslegum hætti stuðlað að og eflt viðskipti á milli Íslands og Kína, meðal annars með ferðum á vörusýningar í Kína, móttöku viðskiptasendinefnda, fyrirtækjastefnumótum og margs konar funda-, námskeiða- og ráðstefnuhaldi.

ÍKV hefur gert samstarfssamninga við Alþjóðaviðskiptaráð Kína og Matvælaviðskiptaráð Kína, sem aðildarfyrirtæki ráðsins njóta góðs af. Á meðal síðustu verkefna ráðsins má nefna vefnámskeið með kínverskum aðilum, þar sem íslenskum innflytjendum var bent á leiðir til að forðast deilur og vandræði vegna CE-merkinga á kínverskum vörum, fundi og ráðstefnur þar sem farið hefur verið yfir hvernig ferðaþjónustan geti bætt sig í móttöku kínverskra ferðamanna og málþing um jarðhitasamstarf Íslands og Kína.

Fríverslunarsamningur opnar ný tækifæri
Gildistaka fríverslunarsamnings Íslands og Kína árið 2014 markaði ákveðin þáttaskil í gagnkvæmum viðskiptum ríkjanna, sem tóku nokkurn kipp eftir gildistöku samningsins, ekki síst útflutningur sjávarafurða til Kína. ÍKV hefur unnið ötullega að því, ásamt íslenskum og kínverskum stjórnvöldum og samstarfsaðilum sínum í Kína, að bæta framkvæmd samningsins og tryggja að íslensk og kínversk fyrirtæki geti fullnýtt þau tækifæri sem í honum felast.

Ferðamenn og fjárfestingar
Samhliða auknum vöruviðskiptum fara þjónustuviðskipti milli Íslands og Kína hraðvaxandi. Kínverjar eru sá hópur ferðamanna sem stækkaði hvað hraðast misserin áður en heimsfaraldur kórónuveirunnar skall á og höfðu kínversk flugfélög þá áform um að hefja flug til Íslands, beint eða með millilendingu. ÍKV vonast til þess að þau áform gangi eftir sem fyrst, enda yrði beint flug öðrum viðskiptum milli ríkjanna mikil lyftistöng.

Gagnkvæmar fjárfestingar á milli landanna fara einnig vaxandi. Kínverskir fjárfestar eiga beint eða óbeint í ýmsum íslenskum fyrirtækjum. Íslensk fyrirtæki hafa fjárfest í Kína og er eitt áhugaverðasta dæmið sameiginlegt fyrirtæki Arctic Green Energy og kínverska ríkisorkufyrirtækisins Sinopec, SinopecGreen Energy, sem rekur nú hitaveitu í um 60 borgum og sýslum í Kína. Annað dæmi er verkefni Carbon Recycling í Henan-héraði í Kína þar sem verksmiðja sem nú er í byggingu í samstarfi við kínverska aðila mun verða stærsti framleiðandi í heimi á eldsneyti sem framleitt er úr koltvísýringi – og þar með marktækur áfangi í þróun hringrásarhagkerfis í Kína. Þannig er þekking og reynsla eins fámennasta ríkis heims nýtt til að hjálpa því fjölmennasta að fást við eina stærstu áskorun 21. aldarinnar, sem er að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

Blómleg viðskiptatengsl Íslands og Kína sýna vel að þrátt fyrir 3.800-faldan mun á mannfjölda geta stór ríki og smá átt efnahagslega samleið. Sá árangur sem náðst hefur í viðskiptum ríkjanna er líka til marks um að þrátt fyrir ólíkt stjórnarfar og menningu geta gjörólík lönd náð vel saman í því að efla viðskipti og þar með velferð íbúa sinna.

Vinarþel – vinátta í verki
Þau misseri sem ég sjálf bjó, nam og starfaði í Kína – og ferðaðist þá og síðar um landið þvert og endilangt – mætti ég aldrei neinu nema vinarþeli í garð Íslands og Íslendinga. Kínverjar sem ég hitti hvarvetna, litu til Íslands sem vinaþjóðar – ofursmárrar og á hjara veraldar – og höfðu ótrúlega margir orð á stórbrotinni fegurð íslenskrar náttúru og vísuðu í náttúrulífsþætti í sjónvarpi um þá vitneskju sína. Eftir Evrópumeistaramótið í fótbolta 2016 var líkast því að við hefðum unnið þá keppni, svo mikil var aðdáun Kínverja á afrekum fámennu vinaþjóðarinnar.

Kínversk stjórnvöld hafa líka á liðnum árum sýnt okkur sérstaka vináttu í verki, síðast við upphaf Covid-19 heimsfaraldursins, þegar frá Kína komu flugvélafarmar af grímum og öðrum búnaði, sem skortur var á hér heima innan íslenskrar heilbrigðisþjónustu. Að ógleymdri þeirri hjálparhönd sem Kínverjar réttu okkur í bankahruninu – þegar neyð okkar var sem mest. Gjaldmiðilsskiptasamningurinn sem þeir gerðu við okkur, þó aldrei þyrfti að virkja hann, greiddi vissulega fyrir því að frændþjóðir okkar veittu loks þau gjaldeyrislán sem voru efnahagslífi okkar nauðsynleg.

Samskipti mín við sendiráð Alþýðulýðveldisins Kína og starfsmenn þess hafa ávallt verið með miklum ágætum. Að öllum fyrirrennurum hans ólöstuðum, þá get ég ekki látið hjá líða á þessum tímamótum að þakka vináttu og einstakt samstarf við íslenskumælandi sendiherrann JIN Zhijian svo og við CHEN Guisheng, yfirmann viðskiptaskrifstofu sendiráðsins. Þeir hafa nú báðir nýlokið tæplega fjögurra ára dvöl og starfi á Íslandi og óska ég þeim alls velfarnaðar í lífi og starfi.

Íslensk-kínverska viðskiptaráðið fagnar þeim merku tímamótum, sem 50 ára afmæli stjórnmálasambands ríkjanna markar og vonast til að Ísland og Kína, geti áfram ræktað vináttusamband og eflt viðskipti sín og samskipti – báðum löndunum til hagsbóta.

Umsókn um aðild að viðskiptaráðinu

Fyrirtækjum er raðað í gjaldflokka eftir fjölda starfsmanna. Í fyrsta flokki eru fyrirtæki með færri en 50 starfsmenn 1. fl. kr. 15.000. Í öðrum flokki eru fyrirtæki með 50 starfsmenn eða fleiri 2.fl. kr. 30.000.

Gjaldflokkur

3 + 5 =

Íslensk Kínverska Viðskiptaráðið

Kirkjubraut 40

300 Akranes

[email protected]

[email protected]

5 + 9 =