Jónína Bjartmarz, eigandi og framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Okkar konur í Kína, var endurkjörin formaður Íslensk-kínverska viðskiptaráðsins í gær, til næstu þriggja ára.
Vegna óvenjulegra aðstæðna á síðasta ári, þar sem stjórnarkjöri var frestað til aðalfundar á þessu ári, var kosið um öll fjögur sæti meðstjórnenda í stjórn ráðsins. Til næstu tveggja ára voru endurkjörnir þeir Ársæll Harðarson, forstöðumaður hjá Icelandair, og Stefán S. Guðjónsson, forstjóri Lindsay. Til eins árs voru kjörin þau Jóhann Y. Xiang, framkvæmdastjóri Asiais, sem einnig átti sæti í síðustu stjórn, og Hrönn Margrét Magnúsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Ankra ehf. – Feel Iceland. Hrönn kemur ný inn í stjórnina.
Aðalfundurinn var vel sóttur í ár þótt starfið hafi ekki verið umfangsmikið í heimsfaraldrinum. Sjö manns voru í framboði til stjórnar.