Íslensk-kínverska viðskiptaráðið (ÍKV), sem Félag atvinnurekenda hýsir og rekur, fékk í morgun góða heimsókn frá skrifstofu Alþjóðaviðskiptaráðs Kína (China Council for the Promotion of International Trade, CCPIT) í London. Chang Yun, framkvæmdastjóri skrifstofunnar, og Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri ÍKV og FA, ræddu margvísleg málefni varðandi gagnkvæm viðskipti Íslands og Kína, þar á meðal fjárfestingar kínverskra fyrirtækja í ferðaþjónustu hér á landi, útflutning íslenskra sjávarafurða og lambakjöts til Kína, framkvæmd fríverslunarsamnings ríkjanna og ýmislegt fleira.
ÍKV og CCPIT endurnýjuðu samstarfssamning sinn fyrir tveimur árum, en hann kveður á um eflingu gagnkvæmra viðskipta milli Íslands og Kína. Chang undirstrikaði á fundinum að aðildarfyrirtækjum ÍKV væri velkomið að hafa samband við skrifstofu ráðsins í London vegna hvers kyns mála sem upp kynnu að koma vegna viðskipta í Kína og myndi starfsfólk hennar reyna að aðstoða viðkomandi fyrirtæki eftir bestu getu. Skrifstofan í London annast samskipti við fyrirtæki á Bretlandseyjum og á Íslandi.