Íslensk innflutningsfyrirtæki sem flytja inn vörur frá Kína geta leitað til jafnt íslenskra og kínverskra stofnana til að fyrirbyggja vandræði vegna ófullnægjandi CE-merkinga á vörunum. Betra er að fyrirbyggja vandræði og deilur vegna ófullnægjandi merkinga en að reyna að leysa úr málum eftir að slíkt kemur upp. Þetta var á meðal þess sem fram kom á vefnámskeiðinu „CE marking of products from China – how to get it right“ sem Íslensk-kínverska viðskiptaráðið, Félag atvinnurekenda og sendiráð Kína á Íslandi efndu til í morgun. Upptöku af námskeiðinu má sjá í spilaranum hér að neðan.
Á hverju ári lenda stór og smá innflutningsfyrirtæki í vandræðum og tjóni vegna ófullnægjandi CE-merkinga á vörum sem fluttar eru inn frá Kína. Séu merkingarnar og skjöl, sem að baki þeim liggja, ekki í lagi er vörunum ekki hleypt inn á íslenska markaðinn. Ýmis dæmi eru um að loforð um réttar CE-merkingar standist ekki og innflytjendur lenda oft í vandræðum með að skila vörunum eða fá þær endurgreiddar, eins og Guðný Hjaltadóttir lögfræðingur FA fór yfir á fundinum.
Hægt að leita til Vinnueftirlitsins fyrir innflutning
Ágúst Ágústsson, sérfræðingur á öryggis- og tæknisviði Vinnueftirlitsins, fór yfir þau atriði sem þarf að aðgæta að séu í lagi varðandi CE-merkingar áður en ráðist er í innflutning á vörum frá Kína. Hægt er að nálgast glærur Ágústs neðst á síðunni. Í máli Ágústs kom fram að ýmis dæmi væru um að innflytjendur leituðu til Vinnueftirlitsins áður en þeir flytja inn vörur og fengju sérfræðinga stofnunarinnar til að fara yfir merkingar og skjöl á borð við samræmisyfirlýsingar. Þannig er hægt að fyrirbyggja að lenda í tjóni vegna þess að vörum með röngum eða ófullnægjandi merkingar sé ekki hleypt inn á markaðinn.
ÍKV getur aðstoðað félagsmenn við að komast í samband við sáttamiðlunarmiðstöð
Wang Fang, aðstoðarframkvæmdastjóri Sáttamiðlunarmiðstöðvar Alþjóðaviðskiptaráðs Kína (CCPIT), greindi frá starfi sáttamiðlunarmiðstöðvarinnar, en hún hefur mikla reynslu af að miðla málum á milli kínverskra framleiðenda og viðskiptavina þeirra í öðrum ríkjum. Wang fór yfir ferlið við sáttamiðlun á milli fyrirtækja, en tók skýrt fram að bezt væri að fyrirtæki reyndu að fyrirbyggja vandræði og deilur með því að leita til sáttamiðlunarmiðstöðvarinnar áður en látið væri verða af viðskiptum og innflutningi. Þannig gæti miðstöðin, eða einhver 59 undirmiðstöðvum hennar í Kína, aðstoðað fyrirtæki við að athuga trúverðugleika kínverska framleiðandans. Að sögn Wang getur miðstöðin jafnframt yfirfarið samninga milli innflytjenda og kínverskra birgja þeirra og gengið úr skugga um að í þeim séu fullnægjandi ákvæði um lausn deilna, komi þær upp.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA og ÍKV, vakti athygli á því að ÍKV hefði samstarfssamning við CCPIT og gæti aðstoðað félagsmenn við að komast í samband við sáttamiðlunarmiðstöðina.
Glærur Ágústs
Erindi Wang Fang
Glærur Guan Junwen
Glærur Sun Xiaohong